Enn á ný bjóða Félag eldri borgara á Akureyri og nemendur Menntaskólans á Akureyri eldri borgurum námskeið í tölvunotkun. Þessi námskeið hafa verið haldin undanfarin ár og þátttaka í þeim verið geysimikil. Eldri borgurum er boðið að koma með fartölvur sínar, spjaldtölvur og síma og nemendur skólans hafa leiðbeint þeim við notkun þessara tóla, meðal annars meðferð mynda, notkun tölvupósts, Facebook, Skype og alls kyns miðla og smáforrita.

Nú er blásið til nýs námskeiðs sem hefst miðvikudaginn 20. apríl klukkan 12.30 og hinum öldruðu nemendum býðst að koma jafnframt tvo næstu miðvikudaga.

Mjög góður rómur hefur verið gefinn að þessum námskeiðum og nemendurnir lokið lofsorði á hina ungu kennara sína og sagt þá hafa opnað þeim nýjar leiðir í samskiptaheimi nútímans.

Inntirun er í síma 587 3093 og 462 1758.