- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í vetur hefur verið unnið að því að uppfæra og endurbæta skrá um listaverk og listmuni í eigu skólans, en áður höfðu unnið að því verki Stefán Jónsson myndlistarmaður, sem hér kenndi um tíma, og Tryggvi Gíslason fyrrum skólameistari, eftir að hann lét af starfi. Sverrir Páll tók við þessu verki í vetur og hefur hann leitað uppi öll skráð listaverk skólans, aukið við skrána og endurbætt hana.
Listasafn MA er merkilegt safn og í því eru margar ómetanlegar perlur. Það er líka verulega mikilvægur þáttur í uppeldi skólans á ungu fólki að umgangast listaverk af virðingu og hafa þau í námunda við sig á venjulegum vinnuegi. Skólinn er, ef að er gáð, afskaplega stórt og fjölbreytt listasafn – en það er ekki víst að allir átti sig á því vegna þess að þetta er allt saman hluti af daglegu vinnuumhverfi skólans.
Gestir skólans undrast oft hve nándin við myndlistina er mikil og reyndar í flestum rýmum skólans, enda ekki venja í öllum skólum að listaverk skreyti veggi eins og hér. Þeir spyrja hvort listaverkin skemmist ekki í daglegri umgengni. Það er hins vegar afar fátítt og þá sjaldan slíkt gerist er það hreint slys.
Það hefur verið nokkur galli á Listasafni MA að verkin hafa ekki verið merkt, það sést ekki alltaf af hverju þau eru, hver gerði þau og hvers vegna þau eru hér. Þess vegna hefur það verið hluti af starfi Sverris Páls í vetur að útbúa merkimiða til að setja við hvert verk, líkt og á öðrum listasöfnum. Dagný Reykjalín hönnuður hafði hönd í bagga með gerð merkimiðanna og Guðjón H. Hauksson vefstjóri aðstoðaði við uppsetningu og prentun.
Nú hafa nánast öll listaverk á Hólum og á Kennarastofu Gamla skóla svo og Meistarastofu og skrifstofum skólameistara og aðstoðarskólameistara verið merkt, og á haustdögum verður lokið við að festa upp merkingar sem enn vantar.
Það hefur lengi verið stefna skólans að hafa listaverk í hverju rými, jafnt kennslustofum, vinnustofum og í alrými. Reyndar á tvennt að vera í hverri kennslustofu: listaverk og bækur, en að því síðarnefnda er einnig unnið.
Til viðbótar má nefna að til þess að gera listaverk í eigu skólans sýnilegri hefur nú í 2 vetur verið hér á vef MA sýnt Listaverk mánaðarins, eins og sjá má nánar hér.