- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Umræður hafa verið nokkrar um skólaferðalög, meðal annars ferð núverandi fjórðubekkinga í MA til Spánar. Moldin fýkur í logninu og stór orð hafa verið höfð, meðal annars að allt sé á öðrum endanum innan skólans vegna ferðarinnar og skólameistari hafi bannað svokallaðar útskriftarferðir. Það er fjarri því að vera sannleikanum samkvæmt eins og fram kemur í viðtali sem Hilda Jana Gísladóttir hjá N4 átti við Jón Má Héðinsson skólameistara og Sindra Má Hannesson, formann skólafélagsins Hugins. Hér má sjá viðtalið.
Á undanförnum árum hefur verið rætt innan skólans um inntak og tilefni ferðalaga sem tengjast skólanum, en fyrir utan svonefndar útskriftarferðir eru farnar ýmsar smærri ferðir námstengdar til annarra landa. Margvíslegar hugmyndir hafa legið í loftinu og nú er ætlunin að taka upp viðræður meðal nemenda og kennara um framtíð ferðalaga á vegum skólans og hugsanlegar breytingar á þeim. Eins og Jón Már skólameistari tekur fram í viðtalinu er síðasta ferð alls ekki ein og sér orsök þessara umræðna en þess ber að geta að það þykir sérstakt fréttaefni í fjölmiðlum ef eitthvað fer úrskeiðis í félagsstarfi nemenda, en síður sagt frá því sem þetta unga fólk gerir vel og af metnaði. Auk þess hafa tæknibreytingar orðið til þess, símar, myndavélar, Youtube, Facebook og fleiri gögn, að ferðir sem þessar eru nú jafnvel í beinni útsendingu.