Umhverfismál varða okkur öll!
Umhverfismál varða okkur öll!

Umhverfisnefnd MA sendi frá sér fréttabréf á dögunum en undir það skrifar umhverfisfulltrúi skólans, Brynja Finnsdóttir. Í bréfinu koma fram helstu áherslur nefndarinnar og yfirlit yfir þau umhverfisverkefni sem skólinn tekur þátt í:

MA hefur náð þremur skrefum af fjórum í verkefninu Græn skref, en það er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Unnið er að því að ná fjórða skrefinu.

Samkvæmt talningum umhverfisfulltrúa og annarra í nefndinni er augljóst að bílum sem lagt er yfir nóttina á plani vestan megin við Möðruvelli hefur fjölgað. Hlutfall bifreiða sem komu inn á stæðið að morgni skóladags (milli kl.7.45 og 8.19) 55% af nemendum með bílprófsaldur og 28% allra nemenda skólans árið 2022 en 35% og 21% árið 2024. Af þessum tölum virðist því ekki aukning á umferð við skólann að morgni til heldur aðeins á þeim bílum sem standa kyrrir á stæðinu yfir nótt/fram eftir degi. Haldið verður áfram að safna gögnum um bílastæðamál við skólann og skoðað hvernig og hvort hægt er að bregðast við.

Nefndin setti upp fataslá í skólanum til að minna á og sporna við fatasóun og offramboði á textíl. Vert er að vekja athygli á fataskiptislánni góðu. Öll eru hvött til að vera duglegt að kíkja á fatnað á slánni og koma með föt að heiman sem ekki eru í notkun.

Öll getum við lagt okkar af mörkum með því að vera vakandi fyrir umhverfisvænum skrefum allt í kringum okkur. Hér má finna gátlista Grænna skrefa fyrir fyrirtæki og stofnanir.