Nýnemar sem útskrifast úr grunnskóla nú í vor geta sótt um skólavist í MA til miðnættis 7. júní, en umsóknarfrestur eldri nema rann út á miðnætti 31. maí. Nemendur geta innritast á mála- og menningarbraut, félagsgreinabraut, náttúrufræðibraut eða raungreinabraut og sækja um skólavist í gegnum menntagatt.is

Menntaskólinn á Akureyri mun leitast við að taka á móti öllum þeim sem sækja um og uppfylla inntökuskilyrði, en þau eru að nemendur hafi hlotið B eða hærra í ensku, íslensku og stærðfræði í skólaeinkunn. Ef til þess kemur að takmarka þurfi fjölda inn á einstaka brautir, mun einkum verða horft á árangur í kjarnagreinum og skyldum greinum.

Innritun nýnema fer fram í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið og stefnt er að því að henni verði lokið 18. júní. Upplýsingar um stöðu umsókna sjást á menntagatt.is.