Á Mývatnsbökkum
Á Mývatnsbökkum

Kennarar og aðrir starfsmenn skólans hafa að undanförnu unnið hörðum höndum að undirbúningi skólastarfsins. Kennarar hafa unnið að áætlunum og skipulagi kennslunnar, ræstitæknar og húsverðir hafa séð til þess að húsnæði sé allt í lagi og þrifið og þokkalegt þegar skóli hefst, á skrifstofunni hefur meðal annars verið gerð stundaskrá og þannig mætti lengi telja.

Einna mest vinna hefur verið við hinn nýja Íslandsáfanga í 1. bekk, þar sem tekin verður upp sú nýbreytni að samkenna nokkrar greinar og breyta áherslum og vinnuaðferðum frá því sem verið hefur. Það er líður í nýrri námskrá við Menntaskólann á Akureyri, sem ýtt er úr vör með þessu. Helmingur fyrsta bekkjar verður á haustönn í Íslandsáfanga sem byggist upp á samfélagsgreinum en hinn helmingurinn í áfanga sem er grundvallaður á náttúruvísindum. Þetta víxlast svo á annaskiptum um mánaðamót janúar/febrúar.

Þáttur í undirbúningi NÁT-hluta Íslandsáfangans í vikunni var ferð nokkurra kennara í Mývatnsveit til að velja staði og viðfangsefni í námsferð sem þangað verður farin á haustönn og vorönn. Á myndunum eru Arna Einarsdóttir og Guðný Guðmundsdóttir líffræðikennarar, Jónas Helgason jarðfræðikennari og íslenskukennararnir Gunnhildur Ottósdóttir og Sverrir Páll.

.