Stjórnufræðimálþing í MA
Stjórnufræðimálþing í MA

Laugardaginn 20. mars verður málþing í Menntaskólanum á Akureyri. Þingið snýst um stjörnufræði og stjörnuskoðun, dagskráin er fjölbreytt og viðamikil og hefst klukkan 10.00 og stendur fram á kvöld ef veður leyfir.

Árið 2009 voru 400 ár síðan Ítalinn  Galileo Galilei beindi fyrstur manna sjónauka til himins og voru athuganir hans markverðir viðburðir í vísindabyltingunni á 17. öld. Sama ár birti Þjóðverjinn Johannes Kepler fyrstu tvö lögmál sín um brautir reikistjarnanna í sólkerfinu.

Þessara tímamóta var minnst víða um heim með Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar (tenglar) (International year of Astronomy) að frumkvæði  Alþjóðasambands stjarnvísindamanna (International Astronomical Union: IAU) og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization: UNESCO) og verður haldið áfram á næstu árum.

Á Íslandi efndu Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands til fyrirlestraraðar fyrir almenning og ritgerðasamkeppni framhaldsskólanema á fyrri hluta ársins 2009 og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness gaf út afmælisritið Undur alheimsins, hélt námskeið og skipulagði stjörnuskoðun.

Með málþinginu á Akureyri er ætlunin að fylgja þessari fræðslu eftir á Norðurlandi. Að því standa  Háskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Stjarnvísindafélag Íslands, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Vísindafélag Norðlendinga. Styrktaraðilar eru Verkefnasjóður og Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri og Vísindafélag Norðlendinga.

Tilgangurinn er að kynna almenningi viðfang, sögu, tækni, aðferðir, kenningar og niðurstöður stjarnvísinda nútímans.

Á dagskrá eru erindi, umræður, sýningar og stjörnuskoðun í nýjum sjónauka undir hvelfingu á þaki Möðruvalla,  raunvísindabyggingar Menntaskólans á Akureyri. Meðal fyrirlesara eru kennarar  við Háskólann á Akureyri og félagar í Stjarnvísindafélaginu eða Stjörnuskoðunarfélaginu, sem sumir eru kennarar við Háskóla Íslands. Einnig verður Stjornuver (Planetarium) til sýnis, en það er uppblásin hvelfing í stofustærð, þar sem líkt er eftir stjörnumerkjum og hreyfingum á himinhvelinu og myndum af ýmsum fyrirbærum himingeimsins varpað upp. Dagskrá málþingsins má sjá hér.

Eftir vígslu nýja sjónaukans verður stofnað félag áhugamanna um stjörnufræði og stjörnuskoðun.

Malþingið fer fram í húsum Menntaskólans á Akureyri: Hólum og Möðruvöllum og hefst kl. 10 að morgni laugardagsins 20. mars og stendur til kvölds. Gengið er inn af bílastæði heimavistarinnar við Þórunnarstræti. Það er opið og ókeypis öllum sem áhuga hafa.

.