SAM - Tímarit okt. 2010
SAM - Tímarit okt. 2010

Undanfarna daga hafa nemendur í SAM- hluta Íslandsáfangans safnað efni, skrifað greinar og tekið ljósmyndir í því skyni að ,,gefa út" unglingatímarit. Tímaritin eru óvenjuleg fyrir þær sakir að í stað þess að endurspegla unglingamenningu nútímans, sýna þau liðinn tíðaranda frá árunum 1966, 1986 eða 2000.

Á sjálfum útgáfudeginum settu nemendur upp nokkurs konar sýningarbása með fatnaði, skartgripum, tónlist og ýmsum munum frá þessum árum.  Sumir nemendur víluðu jafnvel ekki fyrir sér að bregða sér í líki friðelskandi hippa eða aðdáanda Duran Duran hljómsveitarinnar í tilraun sinni til þess að endurskapa tísku, stefnur og strauma þessara áratuga.

Þess má geta að Íslandsáfangar eru nýjung í skólastarfinu í MA og eru fyrirferðarmiklir á fyrsta ári nemenda, eru 13 einingar af 30 eininga námi.  Í áföngunum er annars vegar fléttað saman námsefni í félagsfræði, sögu, íslensku og upplýsingatækni og hins vegar í jarðfræði, líffræði, íslensku og upplýsingatækni.  Margvísleg verkefni eru unnin í áföngunum og er unglingatímaritið hluti af þemaverkefni sem nemendur unnu um unglingsárin.

Skammt er stórra högga milli. Sagt hefur verið frá Mývatnsferð NÁT-hlutans í Íslandsáfanganum en SAM-hlutinn fer í vikunni í sambærilega náms- og efnisöflunarferð til Siglufjarðar.

.