- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Ungmenni á framhaldsskólaaldri sofa of stutt, klukkuþreyta er algeng hjá dæmigerðum kvöldtýpum sem eru líklegri til þess að sofa enn styttra en aðrir, glíma frekar við alvarlega klukkuþreytu, meiri syfju og þunglyndiseinkenni.
Nýverið birtist grein um rannsókn á svefnheilbrigði nemenda við Menntaskólann á Akureyri í ritrýnda tímaritinu Sleep and Breathing. Rannsóknin er unnin í samvinnu við fyrirtækið SleepImage sem hefur undanfarin áratug verið að þróa einfalt svefnmælitæki til mælingar á svefni og greiningar á kæfisvefni. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort svefnmynstur tengist andlegri heilsu ungmenna. Svefninn var mældur á hlutlægan hátt með viðurkenndum mælitækjum frá SleepImage (MDR-CE 2862). Lagðir voru fyrir staðlaðir spurningalistar um andlega líðan og lifnaðarhætti/venjur ungmennanna. Þátttakendur mældu svefninn þrjár nætur á virkum dögum og tvær helgarnætur með fjögurra vikna millibili. Alls kláruðu 65 þátttakendur alla þætti rannsóknarinnar. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að svefnlengd á virkum dögum var 7 klukkustundir og 15 mínútur. Einungis 18% þátttakenda sváfu 8 klukkustundir eða meira á skóladögum sem er ráðlagður svefntími einstaklinga á þessum aldri. Þátttakendur fóru marktækt seinna að sofa um helgar eða 1 klukkustund og 47 mínútum sem var ástæða alvarlegrar klukkuþreytu hjá 71% þátttakenda.
Klukkuþreyta lýsir sér þannig að svefnmynstur á skóla- og frídögum verður mjög óreglulegt, þ.e. hvenær farið er að sofa og vaknað. Tími klukkuþreytunnar er fundinn út með því að reikna út miðsvefn á dæmigerðum virkum degi þegar skóli er daginn eftir. Það þýðir að ef farið er að sofa kl. 23 og vaknað kl. 7 þá hefur viðkomandi sofið í 8 klukkustundir og miðsvefninn er kl. 3. Því næst er miðsvefninn fundinn á dæmigerðum frídegi. Þá er mögulega farið að sofa kl. 2 og vaknað kl. 10. Heildarsvefntíminn er líka 8 klukkustundir og miðsvefninn er klukkan 6. Til þess að reikna þetta út er miðsvefninn á skóladögum dreginn frá miðsvefni á frídögum, sem í þessu tilfelli er 06:00-03:00 eða 3 klukkustundir.
Helstu niðurstöður sýndu einnig að 15,4% voru dæmigerðar kvöldmanneskjur. Sá hópur sofnaði mun seinna á virkum dögum og greindist með marktækt meiri klukkuþreytu. Kvöldmanneskjurnar glímdu einnig frekar við svefnleysi, meiri dagsyfju og þunglyndiseinkenni miðað við aðra hópa. Í heildina staðfestir rannsóknin að ungmenni á framhaldsskólaaldri sofa of stutt. Klukkuþreyta er algeng hjá dæmigerðum kvöldtýpum sem eru líklegri til þess að sofa enn styttra en aðrir og glíma frekar við alvarlega klukkuþreytu, meiri syfju og þunglyndiseinkenni.
Niðurstöðurnar sýna að mikilvægt er að vinna að forvörnum og efla fræðslu og ráðgjöf til ungmenna um svefnheilbrigði. Næsta skref í verkefninu er að birta niðurstöður íhlutunar sem nemarnir tóku þátt í en íhlutunin fól í sér slökun, núvitunda- og öndunaræfingar og fræðslu um leiðir til að bæta svefninn. Greinin birtist þann 28.mars 2024 í ritrýnda tímaritinu Sleep and Breathing. Rannsóknina í heild sinni má finna hér.
Ingibjörg Magnúsdóttir