Frá afhendingu verðlauna í Ungskáld 2015
Frá afhendingu verðlauna í Ungskáld 2015

Úrslit í Ungskáld, keppni um besta textann sem áður hefur verið sagt frá hér á vefnum, voru tilkynnt á Amtsbókasafninu í dag. Um er að ræða samstarfsverkefni Amtsbókasafnins, Akureyrarstofu, Ungmenna-Hússins, Menntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Húsavík. Tilgangur verkefnisins og keppninnar, sem var nú haldin í þriðja sinn, er að hvetja ung skáld á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa.

Í ár sendu 31 höfundar inn 48 verk í keppnina, bæði ljóð og örsögur. Þau ungskáld sem lentu í 1., 2. og 3. sæti fengu bókaverðlaun frá Menningarfélaginu Hrauni í Öxnadal og peningaverðlaun frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra sem er aðalstyrktaraðili verkefnisins. Skáldahúsin (Nonnahús, Sigurhæðir og Davíðshús) ætla að gefa út verkin úr keppninni á prenti sem er virkilega ánægjulegt og hvetjandi fyrir ungu skáldin.

Gaman er að segja frá því að tvær stúlkur úr MA, þær Margrét Guðbrandsdóttir úr 3. B og Antonía Sigurðardóttir úr 4. C lentu í 2. og 3. sæti í keppninni. Margrét samdi ljóðið Samið og hlaut 30 þúsund krónur fyrir annað sætið. Antonía samdi ljóðið Tíminn og hlaut 20 þúsund krónur fyrir þriðja sætið. Sigurvegari í Ungskáld 2015 heitir Eyþór Gylfason en hann útskrifaðist frá MA árið 2010. Hann er nú nemi í ritlist við Háskóla Íslands og hlaut hann 50 þúsund krónur fyrir vinningssöguna Lést samstundis.

Ljóst er að núverandi og útskrifaðir nemendur frá Menntaskólanum á Akureyri eru klárir textasmiðir upp til hópa þar sem Menntskælingar hlutu einnig fyrsta, annað og þriðja sætið í Ungskáld keppninni í fyrra.

Á mynd frá afhendingu verðlauna: Antonía Sigurðardóttir, Margrét Guðbrandsdóttir, Arnheiður Eyþórsdóttir, móðir Eyþórs Gylfasonar og þær Lára Lind og Urður Snædal úr dómnefndinni.

Texti: Kolbrún Ýrr.
Ljósmynd: Nanna Lind. Fleiri myndir á myndasíðu Amtsbókasafnsins