- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
MA var í fyrsta sinn í ár þátttakandi í verkefni sem kallast Ungt umhverfisfréttafólk. Verkefnið er rekið í 44 löndum, víðsvegar um heiminn, en Landvernd rekur verkefnið á Íslandi. Eins og fram kemur á vef Landverndar skapar keppnin vettvang fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings á skapandi hátt.
Allir nemendur í náttúrulæsi á fyrsta ári unnu verkefni í kennslustundum og voru bestu verkefnin, að mati kennara í áfanganum, send inn í keppnina. Verkefnin tengdust öll heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en framsetning var margvísleg og óhætt að segja að sköpunargáfa nemenda hafi fengið að njóta sín. Þrír nemendahópar stóðu öðrum framar og fengu verðlaun fyrir sín verkefni.
Viktoría Sól Hjaltadóttir, Dagný Hjaltadóttir og Óttar Örn Brynjarsson í 1.G bjuggu til barnabókina Ferðalag Bessa sem segir frá apa sem þarf að flýja heimilið sitt vegna skógarelda. Á ferð sinni hittir hann fleiri dýr í öðrum vandræðum tengd mengun og loftlagsmálum. Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta veittu þeim viðurkenningu sem nefnist Val unga fólksins.
Íris Björk Magnúsdóttir, Margrét Helga Jökulsdóttir og Helgi Már Þorvaldsson í 1.T bjuggu til bækling sem vekur athygli á hvað plastmengun getur verið alvarleg og þá sérstaklega fyrir líf í vatni. Þau lentu í 3. sæti í keppninni og dómnefndin, sem skipuð var af reyndu fjölmiðlafólki, hafði þetta að segja um verkefnið: Smekkleg framsetning þar sem skilaboðum er komið til skila á einfaldan og skýran máta. Grafíkin er vel unnin, textinn er auðlesinn og áhorfandi á auðvelt með að meðtaka þær upplýsingar sem fram koma. Textinn sem kemur fram er jafnframt vel unninn og ber þess merki að nemendur kynntu sér málefnið til hlítar.
Sigfríður Birna Pálmadóttir, Sigrún Freygerður Finnsdóttir, Atli Þór Sindrason og Elías Stevensson Bos í 1.A stóðu uppi sem sigurvegarar með teiknimyndasöguna Heimsmarkmiðshetjurnar. Hún fjallar um þrjár ofurhetjur (sem tákna allar eitt heimsmarkmið)sem vinna saman að því að stöðva vonda kallinn, sem táknar mengun. Umsögn dómnefndar var eftirfarandi: Fréttaformið er ekki endilega það besta til að hvetja ungt (og eldra) fólk til aðgerða í loftslagsmálum. Því síður að þylja upp staðreyndir. Það sem skiptir máli er að lokka athygli okkar að málefninu OG halda athyglinni. Það tekst þeim sem standa að baki sigurliðinu. Þau taka stór heimsmarkmið, sjóða þau niður í teiknimyndasögubúning, þar sem hver mynd þjónar tilgangi, halda athygli lesandans og ná í einföldum söguþræði að skafa málskrúð og óþarfa af boðskapnum = að þegar eyðileggingin snertir líf og tilfinningar umhverfissóðans, þá fyrst tekur hann við sér. Þetta er ekkert flóknara. Við erum öll umhverfissóðar, bara mismiklir. Þangað til boðskapurinn nartar í okkar eigið hjarta. Svo fá þau aukaprik fyrir brilljant nöfn á umhverfishetjurnar – sérstaklega hann Þangbrand sem reynir að kristna okkur til náttúruverndar.
Menntaskólinn á Akureyri óskar öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.
Fyrir hönd kennara í náttúrulæsi, Kolbrún Ýrr