Aldnir nemendur, ungir kennarar
Aldnir nemendur, ungir kennarar

Ungur temur, gamall nemur. einhvern tíma hefði það verið kallað öfugmæli því hefðin hefur verið á hinn veginn. En svona snýst veröldin og hraðinn og tæknin og fjölmenningin og allt hvað það heitir hefur sett strik í marga gamla reikninga.

Á undanförnum árum hefur það verið liður í vali nemenda í lífsleikni í 4. bekk að fara á dvalarheimili aldraðra og spjalla og spila við heimamenn. Þar hafa kynslóðirnar mæst og að því hefur verið gerður góður rómur.

Nú er bryddað upp á þeirri nýbreytni í samstarfi Félags eldri borgara og Menntaskólans á Akureyri að bjóða fullorðnu fólki að koma í skólann nokkrum sinnum síðdegis og fá tilsögn annars vegar í ensku og hins vegar í að nota tölvur og net og jafnvel farsíma, í boði nemenda í lífsleikni sem velja þessa gerð samfélagsverkefnis. Lífsleiknikennarar halda utan um þessa skemmtilegu nýbreytni. Arnar Már Arngrímsson hefur umsjón með enskukennslunni og Guðjón H. Hauksson stýrir tölvutilsögninni. Nemendur munu svo taka virkan þátt í þessu starfi og þegar litið var í enskutíma á þriðjudag voru þeir eldri að glíma við svolitið ritverkefni, að segja frá sjálfum sér, en þeir yngri leiðbeindu. Þetta var skemmtilegt og ekki fjarri því að áhugi nemendanna væri talsvert meiri en gengur og gerist á venjulegum hversdegi í skólanum.

Fleiri myndir úr enskutímanum