Haukur, Linda, Steinunn og Hrafnkell
Haukur, Linda, Steinunn og Hrafnkell

Skólameistari boðaði nemendur 1., 2. og 3. bekkjar á sal í gær. Meðal þess sem þar fór fram var að þrír nemendur í 1. bekk I fengu verðlaun fyrir ritgerðaverkefni. Hér var um að ræð samkeppni á vegum Oddfellowreglunnar á Íslandi, en hún fólst í að skrifa ritgerðir á ensku um Sameinuðu þjóðirnar og starf þeirra. Verkefnið tengdist enskunámi krakkanna.

Haukur Jónsson kynnti verðlaunin og kallaði síðan á svið Hrafnkel Hreinsson, Lindu Marie Thorarensen og Steinunni Grétu Kristjánsdóttur og afhenti þeim gjafabréf sem inniheldur ferð til höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York ásamt kynningarferð um Washington og ferðir vítt og breitt um austurströnd Bandaríkjanna og einnig til Ottawa í Kanada. Ferðin stendur dagana 9. til 21. júlí í sumar, en vegna reglna um aldur mun Steinunn fara sína ferð að ári.