- 10 stk.
- 21.03.2016
- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Liðin Níels Karlsson og MJC áttu stórkostlega innkomu í forritunarkeppni framhaldsskólanna þann 19. mars. Í fyrsta sinn í sögu keppninnar bauð nú Háskólinn á Akureyri upp á vinnustofu fyrir keppendur. Að þessu sinni voru liðin aðeins tvö hér fyrir norðan, bæði frá MA.
Bæði þessi lið kepptu í efri styrkleikaflokki, Commodore 64, en þar voru alls 27 lið og 63 keppendur. Í neðri flokknum, Sinclair Spectrum 48, voru einnig 27 lið og rétt tæplega 70 keppendur. Tækniskólinn átti langflest lið í keppninni en þarna voru einnig lið frá FSS, MR, MH, FB, FSU og Flensborg.
Félagarnir Atli Fannar Franklín, Brynjar Ingimarsson og Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson kepptu undir nafninu Níels Karlsson. Þegar þeir báðu kennara sinn og læriföður leyfis fyrir nafninu glotti hann og setti eitt skilyrði: "Þið verðið þá að standa undir nafni." Það gerðu þeir svo sannarlega því þeir unnu keppnina með allnokkrum yfirburðum.
Alexander Jósep Blöndal ákvað að vinna einn undir nafninu MJC. Hann varð í 8. sæti en náði bestum árangri allra einmenninga í keppninni. Það má því vel halda því fram að bæði liðin okkar frá MA séu sigurlið í keppninni.
Það verður að segjast að gríðarlega vel er staðið að þessari keppni. Dagurinn hefst með góðum morgunmat kl. 9 en svo hefst keppni kl. 10 með því að sex þrautir eru lagðar fyrir í einu. Kl. 12:30 er hádegishlé í klukkustund og þá bætast við sex nýjar þrautir. Keppninni lýkur svo kl. 16 en þá er farið yfir nokkrar þrautir áður en úrslit eru kynnt.
Á meðan keppendur glíma við þrautirnar geta þeir fylgst með stöðunni á mjög nákvæmu yfirliti sem uppfærist í hvert sinn sem eitthvert lið sendir inn lausn. Þannig er keppnin mjög spennandi allan tímann bæði fyrir liðin sjálf og þá sem fylgjast með. Síðasta klukkutímann nötra efstu liðin bókstaflega af spenningi því þá er taflan fryst og allt getur gerst á meðan.