Menntaskólinn á Akureyri bauð í gær til upplýsingarfundar varðandi þriggja ára stúdentspróf, sveigjanleg námslok og innritun nemenda í MA. Skólastjórnendur, deildarstjórar, náms- og starfsráðgjafar og umsjónarkennarar 10. bekkjar í grunnskólum á Akureyri og nágrenni sóttu skólann heim.

Brautarstjórarnir, Alma Oddgeirsdóttir og Valdís B. Þorsteinsdóttir, kynntu námsbrautirnar og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á einingafjölda til stúdentsprófs en frá og með næsta hausti verður stúdentsprófið 200 einingar (í stað 210 eininga eins og nú er). Heimir Haraldsson náms- og starfsráðgjafi sagði frá nýnemafræðslunni sem fólst á haustönn aðallega í þjálfun í vinnubrögðum og námstækni en á vorönninni er námskeið í núvitund.

Margt kom til umræðu á fundinum, svo sem hraðlína, sveigjanleiki til stúdentsprófs, skólaalmanakið, breyting á innritunarreglum sem felst í því að aðeins er horft á námsmat í ensku, íslensku og stærðfræði og sitthvað fleira var spurt um.

Menntaskólinn þakkar fulltrúum grunnskólanna fyrir komuna og væntir áfram góðs samstarfs.+200 eininga fundur

200 eininga fundur