Verkfall kennara í framhaldsskólum hefur verið boðað frá 17. mars næstkomandi hafi samningar ekki tekist. Skólayfirvöld vilja að því tilefni koma upplýsingum til nemenda og forráðamanna þeirra.

  • Skólinn er opinn þótt verkfall skelli á, skrifstofur hans, bókasafn og kennslustofur. Nemendum er frjálst að nýta sér þessa aðstöðu.
  • Skólameistari fer ekki í verkfall né heldur starfsfólk í afgreiðslu, húsverðir og ræstitæknar.
  • Kennsluumhverfið Moodle verður opið en kennarar verða ekki við vinnu þar, svara ekki tölvupósti eða fara yfir verkefni.
  • Heimavist MA og VMA verður opin svo og Mötuneyti MA.


Skólayfirvöld hvetja nemendur til að fylgjast vel með fréttum um komandi helgi. Verði samið fyrir miðnætti á sunnudag heldur kennsla áfram á mánudag eins og ekkert hafi í skorist. Verði hins vegar verkfall hvetja skólayfirvöld nemendur til að vinna að námi sínu eins og þeir framast geta og nýta sér þá aðstöðu sem skólinn býður. Nemendur þurfa líka að fylgjast vel með því hvort fréttir berast á vefsíðu skólans, www.ma.is eða Facebooksíðu MA.

Verkfall eða ekki?
Náist samningar áður en boðað verkfall hefst er verkfalli frestað þar til atkvæðagreiðslu um samning er lokið.

Náist samingar eftir að verkfall hefst skólastarf að nýju á meðan atkvæðagreiðsla stendur yfir. Í báðum tilfellum getur verkfall hafist á ný ef samningur er felldur.

Ríkisvaldið getur sett lög til að koma í veg fyrir verkfall.

Í lok verkfalla hefur hingað til verið samið um það hvernig nemendur geta lokið námi sínu. Ekkert er hægt á þessari stundu að segja um það hvernig því verður varið komi til verkfalls.

Hvað eiga nemendur að gera?
Í flestum eða öllum áföngum eru kennsluáætlanir, ýmist á Moodle eða þær hafa verið birtar nemendum með öðru móti. Nemendur eiga að geta haldið áfram námi með hliðsjón af þessum áætlunum.

Mikilvægt er að breyta ekki lifnaðarháttum sínum, vakna snemma og sinna náminu, ástunda hollt líferni í mat og hreyfingu og vinna með félögum sínum.

Nemendur fá tækifæri til að ljúka þeim áföngum sem þeir eru í, svo fremi að þeir haldi áfram í áföngunum.

Það er sérstaklega mikilvægt fyrir alla nemendur að vinna vel að náminu ef til verkfalls kemur, ekki síst þá sem eru að ljúka námi sínu við skólann.

Námsráðgjafar hafa sett inn á vefinn leiðbeiningar til nemenda um það hvernig þeir geta skipulagt tíma sinn og vikuáætlun. Einnig form fyrir forgangsröðun verkefna og form fyrir skipulag annarinnar.

Heimavist og mötuneyti
Heimavist og mötuneyti verða opin þótt verkfall kunni að skella á.  Nemendur þurfa að fylgjast vel með öllum reglum heimavistar og mötuneytis og gera grein fyrir sér áður en þeir fara, ef þeir fara heim.

Kennarar
Kennarar mega ekki fara yfir verkefni, undirbúa kennslu eða veita nemendum leiðsögn meðan á verkfalli stendur. Verði verkfall verður Moodle opið, sem fyrr segir, en kennari má ekki hafa samband við nemendur þar né bæta þangað inn upplýsingum meðan á verkfalli stendur.

Félagslíf
Félagsstarf er í höndum nemenda og þeir geta skipulagt félagsstarf í húsum skólans í samráði við skólameistara.

Lokaorð
Það er nauðsynlegt þegar svona stendur á að vera bjartsýn og dugleg. Vonum það besta – þá mun öllum á endanum ganga vel.

 

Menntaskólanum á Akureyri 14. mars 2014
Jón Már Héðinsson skólameistari