- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Tuttugu og fjórir nemendur MA eru nýkomnir heim úr vel heppnaðri Berlínarferð. Snjólaug Heimisdóttir 4X segir frá:
Fimmtudaginn 4. desember héldum við 24 nemendur til Berlínarborgar ásamt Sigrúnu Aðalgeirsdóttur, þýskukennara og Þorsteini G. Gunnarssyni. Eftir að vera búin að læra um þessa stórborg og kynna sér menningu hennar í tímum alla önnina, var tilfinningin þegar við lögðum af stað stórkostleg því nú fengjum við að upplifa menninguna og söguna beint í æð en ekki frá myndum og sögum.
Dagskráin var vel skipulögð og heppnaðist afar vel og allir höfðu gagn og gaman af þeim stöðum sem við kynntumst. Við fórum meðal annars á Gyðingasafnið þar sem saga gyðinga er rakin í myndum, máli og hlutum sem tilheyra sögu og menningu gyðinga. Heimsóknin var mjög átakanleg en einnig ánægjuleg. Við heimsóttum einnig fleiri átakanlega staði eins og Minnisvarðann um helförina, Neue Wache og Gedenkstätte Berliner Mauer. Það að heimsækja slíka staði fékk okkur til að hugsa hversu gott við höfum það hér á Íslandi.
Við sáum margar af stærstu og fallegustu byggingum Berlínar. Við munum seint gleyma Brandenburgerhliðinu sem er fallegasta og best þekkta kennileiti Berlínar. Einnig gengum við framhjá “Checkpoint Charlie” þekktustu landamærastöðinni þegar múrinn var uppi, við skoðuðum minnisvarðann um Berlínarmúrinn sem og múrinn sjálfan (það sem uppi stendur). Stóru kirkjurnar í Berlín og hinn gríðarstóri sjónvarpsturn vöktu hrifningu okkar. Við fengum góða yfirsýn yfir borgina efst á þaki Þinghússins í Berlín þar sem við stoppuðum, fræddumst um ýmsa staði og sáum í allar áttir.
Við vorum á mjög skemmtilegum tíma í Berlín, fengum að upplifa jólastemminguna eins og hún getur best orðið. Við heimsóttum nokkra jólamarkaði sem voru hver öðrum flottari. Göngutúrar milli básanna á jólamörkuðunum léttu svo sannarlega lundina. Ljósadýrðin, ljúfu tónarnir og ilmurinn af “Currywurst” og sykurhúðuðum möndlum fylltu öll okkar skilningarvit.
Í vel skipulagðri dagskrá var alltaf pláss fyrir frítíma til þess að kanna borgina hver á sinn hátt. Sumir létu heimsóknina í Þinghúsið ekki duga og fóru enn hærra í sjónvarpsturninn og nutu útsýnis þaðan. Aðrir kíktu í heimsókn til dýranna í “Zoologischer Garten im Berlin” og komu heim á hostel með sögur af urrandi ljónum og fjölbreytilegum dýrum. Strákarnir fóru á allsvaðalega rapptónleika og komu mjög sáttir heim. Sumir prófuðu parísarhjólin en allir stoppuðu í búðum og enginn kom tómhentur þaðan. Nokkrir tóku meira að segja verslunaríþróttina á hærra stig og splæstu í yfirþyngd á flugvellinum í tilefni af heimkomu.
Þessi ferð heppnaðist einstaklega vel og lítil sem engin óhöpp urðu. Reyndar glataðist eitt vegabréf og nokkrir misstu af lestum hér og þar og enduðu á langhlaupum um götur Berlínar, sveittir, þreyttir, svangir og örlítið hræddir. En allir skiluðu sér aftur og þessi atriði lífguðu bara upp á ferðina okkar og gerðu hana eftirminnilegri
Berlínarferðin okkar var stórskemmtileg, fræðandi og minningarnar munu eflaust fylgja mörgum þegar þeir heimsækja Berlín aftur, fullnuma á lestakerfið, sprækir í þýskri tungu og klárir á tónleika, í verslunarmiðstöðvar eða eitthvað allt annað. Ég mæli klárlega með þessum áfanga fyrir alla MA-inga sem vilja víkka sjóndeildarhringinn og bæta enn einni ógleymanlegri minningu frá menntaskólaárunum í safnið.
Snjólaug Heimisdóttir 4. X