- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Bókasöfn eru best. Sumir segja að bókasöfn séu tímaskekkja í heimi sem er óræður og að miklu leyti í skýjunum. Bull og vitleysa. Bókasöfn hafa aldrei verið mikilvægari en árið 2021. Fólk þeytist um til að slaka á, stundar hugleiðslu, núvitund, jóga, gönguskíði, fjallabrölt og sprengir hljóðmúrinn á koltrefjum. Kannski búið að gleyma að hugarró er að finna á bókasöfnum. Þar er enginn að flýta sér, þar heyrist í hugsunum okkar, tíminn týnist og hægt er að hrúga í poka efnislegum gæðum sem kosta ekki neitt. Ef maður vill endilega lifa fyrir það. Enginn loftslagskvíði finnst á bókasöfnum því þú skilar því sem þú fékkst án þess að nokkuð hafi breyst.
Í kófi og klikkuðum heimi er hætt við að tengsl rofni. Við gleymum veröld sem var. Áskoranir og annir daglegs lífs eru kappnóg, að skipuleggja í ófyrirsjáanleika er ómögulegt.
Svo gerist það.
Okkur er óforvarandis kippt inn í það sem var. Þráðurinn var þarna, bara svo örgrannur að við rétt náðum að hanga í honum. Hann gildnar með lítilli blárri bók eftir Thomas Mann sem Brynhildur nær í úr hillu á austurveggnum. Svolítið snjáð kápa en vel með farin. Lykt sem ekki er hægt að lýsa en minnir á ryk og mold og raka og móðu og soðnar kartöflur en líka á húsilmi sem seljast í bílförum árið 2021.
Úr bókinni dettur spjald.
Bergþóra Skarphéðinsdóttir í 3.A 10.02.‘72.
Þórarinn Torfason í 2.F 29.10.’84.
Falleg áminning um að skólinn okkar var, er og verður. Í hillunum hjá Brynhildi og Guðnýju á Bókasafni MA.
Hildur Hauksdóttir kennari.