FER-hópurinn fékk að snerta pakkann
FER-hópurinn fékk að snerta pakkann

Í morgun kynntu nemendur á ferðamálalínu borgirnar sem þeir hafa verið að safna heimildum um og skrifað ritgerð með ferðaleiðbeiningum, en á morgun verður flogið út í heim. Enn vita þeir ekki hvert þeir fara, þetta er óvissuferð. Þeir fá afhentan pakka við brottför héðan frá Akureyri í kvöld, opna pakkann þegar komið er að innritun og fá að vita til hvaða flugvallar hver fer. Þegar komið er inn í sjálfa Leifsstöð, hálfa leið til útlanda, opnast annar pakki og sést hverjir verða saman í hópum og til hvaða borgar hver hópur fer, og sá sem rannsakaði þá borg verður fararstjóri. Enn er ekki vitað annað en að farið verður til einhverrar Evrópuborgar.

Ferðir sem þessar hafa verið farnar í áratug og gefist vel. Við heimkomu hefst vinna við að gera myndband um ferðina, sem er lokaverkefni í áfanganum, og oftast hafa nemendur farið í grunnskóla og kynnt þar evrópskar borgir. Þeir hafa með sér myndbandstökuvél en auk þess eru flest ungmenni með fullkomnar mynda- og kvikmyndavélar í snjallsímum sínum. Þeir eiga meðal annars að taka viðtöl við heimamenn á þeirra máli og fella inn í myndbandið og þannig mætti lengi telja.