Vanda Sigurgeirsdóttir talar við nemendur 1. bekkjar í Kvosinni 12. febrúar 2009
Vanda Sigurgeirsdóttir talar við nemendur 1. bekkjar í Kvosinni 12. febrúar 2009

Vanda Sigurgeirsdóttir lektor í tómstundafræðum heimsótti nemendur fyrsta bekkjar í Kvosinni í dag og ræddi við þá um líðan nemenda í skólum. Hún ræddi um nauðsyn þess að skóli væri vinsamlegt samfélag, en nefndi jafnframt dæmi um vanlíðan nemenda i skólum, sumpart vegna aðgerða annarra, einelti, sem gæti haft skaðlegar afleiðingar. Hún fjallaði rækilega um einkenni og afleiðingar eineltis, en það sem mikilvægast var voru skilaboðin sem hún kom til krakkanna. Hvernig manneskja vil ég vera? Hver og einn yrði að ákveða og velja hvernig manneksja hann vildi vera, umburðalynd og láta aðra í friði og koma fram við aðra af virðingu eða kærleiksrík og umhyggjusöm. Sú sem lætur aðra í friði og gerir engum illt eða hin sem er tilbúin að aðstoða aðra og gefa af sér til þess að öðrum líði líka vel. Hún óskaði þess í lokin að öllum nemendum MA auðnaðist að eiga þar góða og ógleymanlega daga. Hún vísaði til eigin reynslu og minninga um dvölina í skólanum sem hefði verið svo góð að allir hlökkuðu ævinlega til endurfunda við skólaslit á sumrin.

Vanda varð stúdent frá MA 1985. Hún var afar virk í félagslífi skólans, ekki síst í íþróttum, og varð afrekskona í íþróttum, jafnt sem knattspyrnukona og þjálfari. Hún hefur unnið mjög mikið að æskulýðs- og tómstundamálum, meðal annars stýrt félagsmiðstöðvum, en er nú lektor í tómstundafræðum við Háskóla Íslands.

Stefán Erlingsson tók mynd yfir Kvosina meðan Vanda ræddi við nemendur en svp tók myndina af Vöndu ásamt Ragnheiði Sigurðardóttir bókaverði, Valdimar Gunnarsyni kennara, Herdísi Zophoníasdóttur námsráðgjafa og Sigurlaugu Önnu Gunnarsdóttur aðstoðarskólameistara. Það eru ljúfir endurfundir þegar gamlir nemendur koma í heimsókn á skólatíma, ekki síður en jubilantar við skólaslit.

.