- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Kennsla féll niður í Menntaskólanum á Akureyri á föstudaginn vegna fráfalls Róberts F. Sigurðssonar. Kennarar og starfsmenn voru kallaðir á fund í upphafi skóladags þar sem Jón Már Héðinsson skólameistari sagði frá andláti Róberts og nemendur voru jafnframt boðaðir á Sal skólans í Kvosinni, þar sem skólameistari bar þeim þessi hörmulegu tíðindi. Tveir prestar frá Akureyrarkirkju, sr. Svavar Alfreð Jónsson og sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, ræddu síðan við viðstadda, hópinn allan svo og smærri hópa bekkjarfélaga og vina Mörtu, dóttur Róberts, umsjónarbekk hans og aðra nemendur hans.
Í dag hófst kennsla á ný. Ekki verður fyllt það skarð sem Róbert skildi eftir sig, en Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Valdimar Gunnarsson munu fyrst um sinn sinna bekkjum sem hann kenndi.
Róbert var afar trúr starfi sínu, nákvæmur og vandvirkur kennari sem bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann átti áhugamál sem var honum ástríða, silungsveiði - einkum og sér í lagi á Skagaheiði, sem var Paradís í augum hans. Hann hlakkaði ákaft til vorsins, að komast með flugustöngina vestur, og hann naut þess að koma með vel reykta bleikju og gefa vinnufélögum að smakka á hausti.
Myndirnar sem hér fylgja tók Richard Middleton enskukennari í veiðiferð, sem hann fór með Róbert á nýliðnu sumri.
.