Fyrirlesarar á fundi og formaðurinn, Þórleifur.
Fyrirlesarar á fundi og formaðurinn, Þórleifur.

Að kvöldi 18. mars hélt foreldrafélag MA fund um forvarnir undir yfirskriftinni ?Neyslumenning og áhættuþættir í lífi yngstu nemendanna.? Mæting foreldra var sérstaklega góð og tóku þeir virkan þátt í umræðum.

Á fundinum talaði Arnfríður Kjartansdóttir sálfræðingur um fíkn sem getur lýst sér á ýmsa vegu og nefndi þar sérstaklega þunglyndi sem fylgifisk fíknar. Anna Hildur Guðmundsdóttir frá SÁÁ talaði einnig um fíkn en aðallega um áfengis- og vímuefnafíkn og um það að unglingamenning dagsins í dag sé frábrugðin þeirri sem foreldrarnir upplifðu því nú er misnotkun vímuefna mun almennari, framboðið hefur aldrei verið meira og efnin eru mun sterkari og hættulegri en þau voru áður. Viðhorf unglinga til vímuefna og þeirra sem neyta þeirra er líka ótrúlega jákvætt sem segir sína sögu.

Þriðji á mælendaskrá var Þorsteinn Pétursson, betur þekktur sem Steini Pjé. Hann vísaði í Barnarverndarlög og talaði um grunnréttindi barna sem eru rétturinn á vernd og umönnun og um tilkynningaskyldu allra þeirra sem hafa ástæðu til það ætla að heilsu og þroska barns sé stofnað í alvarlega hættu. Steini minnti fundargesti einnig á þá staðreynd að fjórðungur allra lögbrota er framinn af börnum frá 10 - 17 ára aldri og að fólk undir 21 árs fremur 40% allra lögbrota. Í lok máls nefndi svo Steini að kannski væri betra að slökkt væri á tölvunni um kl. sjö á kvöldin og börnin í staðinn send út að leika sér. Það væri mun öruggari staður fyrir börn en internetið.

Í framhaldi þessara fyrirlestra spunnust fjörugar umræður og komu fram miklar áhyggjur foreldra af þeirri hefð sem hefur myndast hjá nemendum skólans að fjórðubekkingar, böðlar, bjóði fyrstubekkingum, busum, í partý strax í upphafi skóla á haustin. Þarna komist allt of margir nemendur í fyrsta sinn á ævinni í beina snertingu við áfengi og byrji þarna að drekka.

Eftir hlé gerði Hafþór Barði Birgisson tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar ítarlega úttekt á þeim ógnum sem mætir börnum og unglingum í netheimum. Skv. Hafþóri byrja börnin að nota internetið á aldrinum sjö til átta ára og hafa þar með aðgang að nánast hverju sem er.

Eftir fyrirlesturinn var margt rætt en netmál heimavistar vógu þungt. Fundargestir virtust flestir á þeirri skoðun að loka ætti fyrir netaðgang á nóttunni.

.