- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Velgengnisdagar hefjast í Menntaskólanum á Akureyri í dag og að þessu sinni taka þátt í þeim nemendur í fyrsta og öðrum bekk, þeir sem eru í námi samkvæmt nýrri námskrá.
Velgengisdagar eru nýtt fyrirkomulag á lífsleiknikennslu í Menntaskólanum á Akureyri en þessa daga vinna nemendur að margvíslegum verkefnum sem miða að því að búa þá undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Á velgengnisdögum eru grunnþættir nýrrar menntastefnu í brennidepli: jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, sjálfbær þróun, læsi í víðum skilningi, sköpun og heilbrigði.
Á velgengnisdögum er hefðbundin stundaskrá brotin upp í þrjá daga á hvorri önn og mismunandi áhersluþættir eru teknir fyrir í hverjum bekk. Í fyrsta bekk er sjónum beint að heilbrigðum lífstíl og forvörnum, í öðrum bekk er áhersla lögð á fjármálalæsi, lýðræði og mannréttindi, ásamt náms- og starfsvali. Í þetta sinn eru fyrsti og annar bekkur að vinna í verkefnum velgengnisdaga, en þeim verður svo haldið áfram hjá þessum sömu nemendum næstu tvö ár. Í þriðja bekk verður meðal annars fjallað um sjálfbæra þróun og jafnrétti og í fjórða bekk verða lokaverkefni nemenda í forgrunni. Reynt er að nálgast viðfangsefnin á fjölbreyttan hátt og markmiðið er að nemendur séu virkir þátttakendur í náminu.
Nemendur í 1. og 2. bekk vinna nú í þrjá daga að margvíslegum verkefnum tengdum því sem hér á undan sagði undir leiðsögn kennara. Hefðbundin kennsla verður á meðan í 3. og 4. bekk.
Meðal þess sem nemendur í 2. bekk eru að vinna að á velgengnisdögum í þetta sinn er að standa fyrir góðgerðadegi á föstudaginn í þessari viku, 23. mars. Þá er ætlunin að grípa til ýmissa ráða til að safna fé og gefa til góðra mála, búa til eitt og annað til að selja eða jafnvel hafa áheitakeppni og einnig jafneinföld góðverk og að fara og heimsækja gamalt fólk á dvalarheimilum og stytta því stundir.