Nú er orðið ljóst að samningar nást ekki fyrir miðnætti og því mun verkfall Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum hefjast í fyrramálið. Hvert framhaldið verður vitum við ekki en það mun vonandi skýrast á morgun.

Skólameistari sendi póst til nemenda í gær varðandi verkfall: 

  • Þau sem fara í verkfall eru allir framhaldsskólakennarar, leiðbeinendur, náms- og starfsráðgjafar, sálfræðingur, aðstoðarskólameistari og brautarstjórar.
  • Þau sem ekki fara í verkfall eru starfsfólk á bókasafni, húsverðir, ræstitæknar, umsjónarmaður tölvumála, skrifstofustjóri, fjármálastjóri og skólameistari.
  • Hjúkrunarfræðingur verður til viðtals á áður auglýstum tímum.
  • Engin kennsla verður í skólanum meðan á verkfalli stendur og engum er heimilt að ganga í störf kennara.
  • Kennarar í verkfalli verða ekki í samskiptum við nemendur eða foreldra.
  • Öll fjarkennsla á vegum skólans í umsjón eða á ábyrgð kennara fellur niður.
  • Canvas verður opið með því efni sem þar verður í upphafi verkfalls. Engin samskipti við kennara verða í gegnum Canvas.
  • Skólinn verður opinn alla virka daga á dagvinnutíma.
  • Bókasafnið verður opið.
  • Heimavist MA og VMA verður opin.
  • Mötuneyti MA verður opið.
  • Nemendafélagi skólans er heimilt að halda sinni starfsemi áfram sem að öllu jöfnu er ekki í samstarfi við eða í umsjón kennara. Þátttaka í Gettu betur og Morfís helst óbreytt og LMA heldur áfram að æfa fyrir Galdrakarlinn í Oz.

Komi til verkfalls eru allir nemendur hvattir til að sinna náminu eftir bestu getu þótt kennsla falli niður. Einnig er lykilatriði að halda í reglubundnar venjur eins og að sofna á skynsamlegum tíma á kvöldin, vakna á morgnana til að sinna verkefnum, hreyfa sig reglulega og fleira af því taginu. Alvarlegustu afleiðingar verkfalla felast í brottfalli nemenda sem missa löngun og kraft til að sinna náminu áfram og finnst það jafnvel tilgangslaust. Hægt er að vinna gegn því með því að halda í rútínu og vera virk.