Juan Camilo og Anna Lára frá Rauða krossinum
Juan Camilo og Anna Lára frá Rauða krossinum

Rauði krossinn stendur um þessar mundir fyrir átakinu Vertu næs. Þar hvetur Rauði krossinn landsmenn til þess að bera virðingu fyrir náunganum, sama hvaðan hann er upprunninn.

Á vegum Rauða krossins á Akureyri var boðið upp fyrirlestur Önnu Lára Steindal og Juan Camilo „(V)ertu næs? – fjölbreytileiki og fordómar“ í MA í dag. Þau heimsóttu einnig elstu bekki grunnskólanna á Akureyri auk VMA með fyrirlestur sinn. Meðal þess sem velt var upp var hvort leynist fordómar gagnvart innflytjendum í okkar litla samfélagi og hvort við höfum undirbúið jarðveginn þannig að fjölbreytileikinn dafni, og allir fái að njóta sín jafnt?

Nemendur í menningarlæsi, sögu og sálfræði sóttu fyrirlesturinn, auk fjölmargra nemenda sem nýttu eyðu í stundatöflu til að hlusta. Fyrirlesturinn vakti athygli nemenda, og flutningur Juan á ljóði Snorra Hjartarsonar, Flóttavegurinn, var eftirminnilegur. Sjá einnig umfjöllun á fréttavef RÚV.is

Flóttavegurinn eftir Snorra Hjartarson

Ég heyrði þau nálgast
í húminu beið
á veginum rykgráum veginum

Hann gengur með hestinum
höndin kreppt
um tauminn gróin við tauminn

Hún hlúir að barninu
horfir föl
fram á nóttina stjarnlausa nóttina.

Og ég sagði; þið eruð
þá enn sem fyrr
á veginum flóttamannsveginum

en hvar er nú friðland
hvar fáið þið leynzt
með von ykkar von okkar allra ?

Þau horfðu á mig þögul
og hurfu mér sýn
inn í nóttina myrkrið og nóttina