Nemendur dreifa ást um skólann í ástarviku
Nemendur dreifa ást um skólann í ástarviku

Nemendur Menntaskólans á Akureyri boða ást. Skólafélagið Huginn stendur fyrir „ástarviku“ dagana 8. – 12. febrúar þar sem ást og kærleikur ráða för. Meðal „ástaratriða“ sem boðið verður upp á í vikunni er sérstök ástarmynd og flatbaka, líkast til reidd fram af mikilli ástúð. Nemendur og starfsmenn skólans eru minntir á ástina að morgni dags alla daga vikunnar. Sígild ástarlög og ástarorð nemenda hljóma um skólann og litskrúðugt ástarsælgæti freistar margs morgunhanans áður en tekist er á við áskoranir dagsins.

Í morgun stóðu nemendur í SauMA – Kór Menntaskólans á Akureyri vaktina. Þeir buðu upp á karamellur og sleikipinna og töluðu hlýlega í eyru þeirra sem gengu hjá. Undir hljómaði „Lítið ástarbréf“ með hljómsveitinni Módel. Útsendari ma.is tók boðberana tali og spurði hvað þeim gengi til með uppátækinu. „Við erum að dreifa ást um skólann“ svöruðu þeir einum rómi. Ekki er laust við að sæt karamellan og ástarhjal nemenda hafi slegið tóninn fyrir verkefnin framundan. Fagnaðarerindi þeirra hitti beint í hjartastað.