Ragnar Hólm á bleikum föstudegi
Ragnar Hólm á bleikum föstudegi

Ragnar Hólm er sá fjórði sem við kynnum úr hópi starfsmanna. Hann er fjármálastjóri skólans og hóf störf fyrir rúmu ári.

Ragnar sér ekki eftir því að hafa skipt um starf og hafið störf í MA. ,,Það er mjög skemmtilegt að vinna í MA, mjög fjölbreytt, enginn dagur er eins og tíminn flýgur áfram. Hér er ég líka meira í samskiptum við fólk.“ Þetta hefur verið mjög annasamt ár fyrir fjármálastjórann og margt nýtt að læra; jafnlaunavottunin tók mikinn tíma og hugsun svo það var mikill léttir og sigur að fá hana samþykkta fyrr í haust. Ragnar eignaðist líka annað barn fyrir tæpu ári svo það hefur sannarlega verið nóg að gera.

Það er ekkert ýkja langt síðan Ragnar var sjálfur nemandi í MA því hann brautskráðist 2007. Að sögn þá leið honum vel í skólanum sem nemanda og bestu vinum sínum kynntist hann hér. Hann segir að það hafi líka verið gaman að koma aftur og sjá að enn voru hér margir ,,gamlir“ kennarar.

Helsta áhugamál Ragnars er að hjóla. ,,Ég hef mjög gaman af því að hjóla og fer mjög oft Eyjafjarðarhringinn og finnst það alltaf skemmtilegt. Fjölskyldan á líka sumarhús í Fnjóskadal þar sem við vorum töluvert í sumar og ég hjólaði tvívegis þangað.“

Að lokum; Hvaða minningu er gott að ylja sér við á þessum COVID-tímum? Eitt af því sem stendur klárlega upp úr er þegar við ákváðum að skella okkur í Evrópureisu heilt sumar með einn tæplega þriggja ára gutta. Við ferðuðumst milli sjö landa í lestum og strákurinn reyndist hinn fullkomni ferðafélagi. Bíðum spennt eftir að komast aftur á flakk og þá fjögur.