- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Gamli skóli verður 120 ára í október. Frá árinu 1904 hefur skólabyggingin verið eitt aðaleinkenni Akureyrar og hýst áhugavert fólk og forvitnilega gjörninga af öllum stærðum og gerðum. Við rifjum upp atvik sem tengjast þessu fornfræga húsi í máli og myndum fram að afmælishátíðinni. Í umfjöllun um sögu skólans hér á síðunni segir svo:
Menntaskólinn á Akureyri á nánustu rætur að rekja til hins endurreista norðlenska skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem stofnaður var 1880, en hann var arftaki stólsskólans eða dómsskólans á Hólum í Hjaltadal. Sá skóli mun hafa verið stofnaður í upphafi biskupstíðar Jóns helga Ögmundarsonar árið 1106 og stóð allt til ársins 1801, en þá voru biskupsstólarnir á Hólum og í Skálholti lagðir niður og allt starf þeirra flutt til Reykjavíkur.
Norðlenskur skóli var endurreistur 1880, en þá var settur gagnfræðaskóli á Möðruvöllum í Hörgárdal, en bændaskóli á Hólum í Hjaltadal, hinu forna skóla- og biskupssetri, var stofnaður 1882. Eftir að skólahús á Möðruvöllum brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Gamli skóli, hið mikla og fagra timburhús á Brekkubrúninni, var reistur sumarið 1904, íþróttahúsið ári síðar og hús Heimavistar á árunum 1946-1956. Haustið 1969 var tekið í notkun kennsluhús fyrir raungreinar með samkomusal í kjallara, Möðruvellir. Haustið 1996 var síðan tekið í notkun nýtt kennsluhúsnæði, Hólar, með 9 stórum kennslustofum, vel búnu bókasafni og samkomusal, sem gengur undir nafninu Kvosin, og rúmar 600-700 manns í sæti. Sumarið 2003 var svo tekið í notkun á skólalóðinni nýtt heimavistarhús.
Gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum var fyrsti gagnfræðaskóli landsins og þar var í upphafi ætlað að kenna verðandi bændum hagnýt fræði. Eftir bruna skólahússins á Möðruvöllum og þegar skólinn var kominn til Akureyrar breyttist nafn hans og varð Gagnfræðaskólinn á Akureyri. Fljótt var mikil áhersla lögð á kennslu í fræðum á borð við íslenskt mál og náttúruvísindi og snemma kom upp sú skoðun að hinn norðlenski skóli yrði gerður að stúdentaskóla. Á árunum eftir 1920 tók sú barátta að bera nokkurn árangur, en árið 1924 var byrjað að kenna námsefni til stúdentsprófs. Fyrstu stúdentarnir sem höfðu hlotið menntun sína í hinum norðlenska skóla voru með undanþágu brautskráðir frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1927. Með lögum frá Alþingi árið 1930 var loks kveðið á um að á Akureyri skyldi vera „skóli með fjórum óskiptum bekkjum, er nefnist Menntaskólinn á Akureyri.“ Allar götur síðan hafa stúdentar brautskráðst frá Menntaskólanum á Akureyri.