- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nú nálgast sú stund að skólahúsin verði iðandi af lífi og nemendur komi til starfa að loknu sumarleyfi. Skólinn verður settur miðvikudaginn 14. september klukkan 10.30. Í vetur eru 748 nemendur skráðir til náms, 227 í fyrsta bekk, 204 í öðrum bekk, 163 í þriðja bekk og stúdentsefnin eru 154. Bekkjardeildir er 31.
Á meðan nemendur eru fjarverandi er mikið unnið í skólanum. Kennarar eru flestir komnir til starfa við að útbúa kennsluáætlanir, skipulag og verkefni. Nefna má að kennarar í Íslandsáfanganum munu vinna á fimmtudag og föstudag, 8. og 9. september að því að skipuleggja vetrarstarfið í ljósi fenginnar reynslu á síðasta ári. Mánudaginn 12. september er svo Húsþing, en það er samfundur allra starfsmanna skólans. Skólasetning er svo eins og fyrr segir 14. september og kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 15. september. Busavígsla verður þriðjudaginn 20. september.
Fleira gerist þegar nemendur eru fjarverandi. Í sumar hefur verið unnið að margvíslegum endurbótum á húsum skólans. Haldið var áfram að skipta um glugga í Gamla skóla, þar voru einnig viðarmálaðar hurðir sunnan við Langagang, þar sem eru skrifstofur skólayfirvalda og kennarastofa. Þá var settur dúkur í teppis stað í vinnustofu kennara Undir Svörtuloftum og stórbreyting gerð á aðstöðu námsráðgjafa í kjallara Gamla skóla, en framvegis verða þeir báðir þar, hlið við hlið. Á Möðruvöllum var unnið að því að skipta um gler í stigagangi en mesta breytingin þar er að tölvustofurnar tvær í Möðruvallakjallara voru sameinaðar. Þar verður tveggja bekkja fyrirlestra- og vinnustofa, meðal annars til að uppfylla þarfir Íslandsáfangans. Tölvur verða í skoti við hlið þessa salar og jafnframt á gangi kjallarans. Ýmsar breytingar og uppfærslur hafa verið gerðar á tölvukerfi skólans, en áfram verður notaður opinn og ókeypis hugbúnaður. Á Hólum er helst framkvæmda að þar hefur verið skipt um dúk á stiganum úr anddyri niður í Kvos, en nýr dúkur var settur á anddyrið í fyrra.
Allt verður þetta tilbúið þegar nemendur koma til starfa eftir rétta viku.