Sigurvegarar á Viðarstauki 2013
Sigurvegarar á Viðarstauki 2013

Í gærkvöldi fór fram tónlistarkeppnin Viðarstaukur í Kvosinni. Viðarstaukur er hljómsveitakeppni sem haldin hefur verið frá því um 1980.

Viðarstaukur er haldinn af TóMA, Tónlistarfélagi MA og gekk keppnin mjög vel fyrir sig. Níu keppendur stigu á svið og var hlé þar sem sjoppan var opin. Verðlaun voru góð, plötuúttektir og matur og drykkur í veitingahúsum bæjarins. Dómarar voru Haukur Tryggvason á Græna hattinum, Lára Sóley Jóhannsdóttir fiðluleikari og Arnar Már Arngrímsson, íslenskukennari og vöðvatröll.

Í fyrsta sæti urðu þau Anton Bjarki og Karlotta með hljómsveit sinni (Stefáni Oddi, Finnboga og Atla Birni) en þau fluttu þrjú frumsamin lög. Í öðru sæti voru Antannae Kids en það eru þeir Bjarni Benediktsson og Axel Flóvent. Þeir spiluðu elektroníska tónlist og voru með tvö frumsamin lög. Í þriðja sæti var svo Lopabandið sem spilaði sína útgáfu af Sail með Awolnation og Midnight City með M83.

Keppendur stóðu sig allir með mikilli prýði og má með sanni segja að keppnin hafi ekki heppnast svona vel í mörg ár. Í fyrra féll hún niður vegna dræmrar þátttöku og árið þar áður voru mjög fáir keppendur og viðburðurinn frekar lítill. Aðsókn var líka góð í þetta sinn og gaman að vita að Viðarstaukur er að vaxa á ný.

Myndir í myndasafni og texti frá TóMA, Sylvíu Dröfn Jóndsdóttur