- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendur á tungumálasviði 4. bekkjar eiga á sinni síðustu önn að gera lokaverkefni sem tengist tungumálum á einhvern hátt. Verkefnið er að öðru leyti frjálst en gerð krafa um fræðilegan og skapandi hluta. Einhverjar hugmyndir eru nú þegar að fæðast og má nefna verkefni um táknmál, hrollvekjuskáldsögu, ferðahandbók fyrir börn, barnabók sem er bæði á þýsku og íslensku o.fl.
Í dag kom gamall nemandi skólans, Vilhelm Anton Jónsson, í heimsókn og ræddi við hópinn um vinnuna frá hugmynd að lokaafurð. Hann hefur komið víða við á ferlinum, unnið í útvarpi og sjónvarpi, sinnt tónlist og myndlist og skrifaði nú síðast Vísindabók Villa sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hann fór vítt og breitt í spjalli sínu, hvatti nemendur til að velja efni sem þau nenntu að fjalla um til að auka líkurnar á að verkefnið yrði skemmtilegt, sagði þeim að eyða miklum tíma í að hugsa og mælti sérstaklega með sundferðum til þess, þó hann væri þá farinn að hljóma eins og Jón Már.
Óhætt er að segja að nemendur fengu ýmis gullkorn í nestispokann fyrir þetta ferðalag sem bíður þeirra næstu mánuði.