- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Leikfélag MA frumsýndi söngleikinn Vorið vaknar í smekkfullu Samkomuhúsinu í gærkvöld. Frumsýningin gekk afar vel og fögnuður áheyrenda var innilegur og mikill að lokum. Önnur sýning er í kvöld, föstudagskvöld, og sú þriðja á sunnudagskvöld.
Vorið vaknar er rokksöngleikur eftir Steven Sater með tónlist eftir Duncan Sheik. Hann er byggður á leikverki eftir Frank Wedekind, sem var lengi vel umdeilt og seinna bannað í Þýskalandi.
Söngleikurinn fjallar um unglinga sem eru að uppgötva sjálfa sig kynferði sitt og í senn að reyna fóta sig í heimi fullorðinna seint á 19. öld. Þó að kynslóðabilið hafi breyst á einni öld og unglingar búi við allt annað umhverfi nú en þá er ljóst að þeir standa enn frammi fyrir mikilvægum spurningum og ef þeim er ekki svarað getur margt misjafnt gerst. Vorið vaknar er áhrifamikil og spennandi sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Nýstárleg rokktónlist spilar stórt hlutverk í sýningunni, ásamt kraftmiklum söng og hrífandi dansi.
Vorið vaknar er fyrst og fremst verk og sigur nemendanna sjálfra sem í leikhópnum eru, alls um 60 talsins. LMA fékk Auðrúnu Aðalsteinsdóttur og Emilíu Baldursdóttur til að þýða leikritið og söngtextana og leikstjóri er Jón Gunnar sem á að baki sýningar eins og Hárið, Rocky Horror Lilya forever, Lísa og Lísa, sem er í gangi hjá LA núna, og Lúkas. Annað vinna nemendur sjálfir. Ásdís Rós Alexandersdóttir samdi og þjálfaði dansa og sviðshreyfingar og Steinunn Atladóttir útsetti tónlistina fyrir 10 manna hljómsveit, einsöngvara og kór og stjórnaði æfingum á því öllu. Leikarar og dansarar eru 25 og margir þeirra leika fleiri en eitt hlutverk.
Það er ærin ástæða til að hvetja fólk til að sjá þessa metnaðarfullu og merkingarríku sýningu LMA.