Wolfgang Edelstein í MA
Wolfgang Edelstein í MA

Í dag er dr, Wolfgang Edelstein, einn kunnustu skólamanna á Íslandi, í heimsókn í Menntaskólanum á Akureyri. Hann á meðal annars fundi með skólastjórnendum og starfsnefndum nýrrar námskrár. Á morgun mun Wolfgang flytja fyrirlestur í Háskólanum á Akureyri um lýðræði í skólastarfi.

Wolfgang Edelstein er einn áhrifamesti skólamaður hér á landi á ofanverðri tuttugustu öld. Hann var ráðgjafi menntamálaráðherra frá 1966?1984 og aftur 1989?1991 um mótun skólastefnu og stýrði ýmsum umbótaverkefnum, m.a. á vegum skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins. Wolfgang hóf feril sinn sem kennari og varð síðar námstjóri við Odenwaldskólann, sem var einn af þekktustu umbótaskólum í Þýskalandi á síðustu öld. Wolfgang var einn stjórnenda Max-Planck menntarannsóknastofnunarinnar í Berlín og stýrði þar ýmsum verkefnum sem einkum beindust að námi og þroska barna. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við viðfangsefni sem snerta megináhugamál hans: Lýðræði í skólastarfi, siðgæðisuppeldi, nám gegn fordómum, skapandi hugsun og skólaþróun. Wolfgang var í stjórn þróunarverkefnis um lýðræði í skólastarfi á vegum menntamálaráðuneyta þýsku landanna 2002?2007 en það verkefni náði til um 180 skóla. Bók Wolfgangs Skóli ? Nám ? Samfélag kom út í nýrri útgáfu fyrir skömmu. Wolfgang er heiðursdoktor við Háskóla Íslands. (Skv. vef menntavísindasviðs Háskóla Íslands)

Á mynd Stefáns Erlingssonar er dr. Wolfgang í Kvosinni í MA ásamt Jóni Má Héðinssyni skólameistara, Sigurlaugu Önnu Gunnarsdóttur aðstoðarskólameistara, Ölmu Oddgeirsdóttur brautarstjóra almennrar brautar og þeim Hildi Hauksdóttur og Valgerði S. Bjarnadóttur, sem bera hitann og þungann af gerð nýrrar námskrár MA. Hina myndina tók Valgerður S. Bjarnadóttir á fundi Wolfgangs með Íslandshópnum.

.