- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Skólafundur var eftir hádegi í dag, þar sem fjallað var um væntanlegar breytingar á skólakerfinu. Stjórn skólafélagsins Hugins stóð að fundinum í samvinnu við skólastjórnendur. Fulltrúar úr stjórn Hugns, Jóhanna Þorgilsdóttir og Óskar Jóel Jónsson stýrðu fundi og fyrirspurnum.
Í upphafi kynnti Jón Már Héðinsson skólameistari breytingar þær sem undanfarið hefur verið unnið að, að stytta nám til stúdentsprófs með því móti að bjóða nemendum að velja sér lengd skólatíma, þrjú, þrjú og hálft eða fjögur ár, eins og kynnt var hér á ma.is fyrir skemmstu. Jafnframt kom fram að skólaárinu yrði hnikað til og myndi hefjast í ágústlok á hausti komanda. Baðst meistari afsökunar á því að málin hefðiu ekki verið kynnt á fundi með nemendum áður en þau spruttu fram í fjölmiðlum.
Að lokinni kynningu skólameistara fluttu tveir nemendur prýðileg ávörp og bentu á vankanta þessara breytinga. Það voru Egill Örn Ingibergsson í 2D og Karolína Rós Ólafsdóttir í 3B.
Að þessu loknu voru bornar upp spurningar sem stjórn Hugins höfðu borist bréflega og í framhaldi af því spurningar úr sal. Ásamt skólameistara svöruðu Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari, og sviðsstjórarnir Valdís Björk Þorsteinsdóttir og Alma Oddgeirsdóttir.
Langflestar spurningarnar sneru að breytingu skólaársins, styttra sumarleyfi og þar með styttri vinnutíma nemenda, fyrirkomulagi skólaferðar verðandi fjórðubekkinga og próftíð. Var greinilegt að nemendur höfðu verulegar áhyggjur af þessar tilfærslu bæði fjárhagslega og félagslega. Einnig var talsvert spurt um hið nýja fyrirkomulag, hvernig væri hægt að koma stúdentsprófinu fyrir á þremur árum þannig að það væri gildur aðgöngumiði í háskóla, hvort nemendur sem tækju stúdentspróf á þremur og hálfu ári yrðu brautskráðir um jól eða þyrfti að bíða til vors o.s.frv. Eins hvað yrði um busavígslu, dimissio og útskriftarferðir og hvort þetta yrði jafnvel rothögg á félagslífið.
Þessum spurningum var svarað eftir föngum, sumt væri þegar ákveðið en annað í pípunum og skólameistari lagði áherslu á að skipuð yrði nefnd nemenda og starfsmanna til að fara yfir mörg þessara mála, meðal annars félagsstarfið og móttöku nýnema og kveðju burtfararnema. Einnig kom fram varðandi þá sem kysu að taka mikinn þátt í félagsstarfinu eða öðru utan námsins að þeim stæði til boða, ef vildu, að bæta við sig námstíma. Hins vegar yrði þess gætt að félagsstarfið yrði verndað eins og mögulegt væri vegna þess hve mikilvægt það væri skólanum.
Fundurinn var mjög góður og fór afar vel fram, en greinilegt er að ekki eru allir á eitt sáttir og uggur í mörgum gagnvart framtíðinni, meðal annars að vera í skóla með tveimur ólíkum kerfum og hvort breytingarnar gætu haft neikvæð áhrif á nám þeirra sem eiga eftir að ljúka því samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Hins vegar má vona að frekara samtal innan skólans verði til að skýra og sætta og finna heppilega lausn allra þessara flóknu mála.